Aulahrollur

Ég fæ jafnan aðkenningu að aulahrolli þegar ég heyri af tvískinnungi Bandaríkjamanna þegar kemur að því að banna efni í sjónvarpi og bíómyndum. Eins og alkunna er þá eru nær engar hömlur á því þar í landi hvað má sýna í sjónvarpi og kvikmyndum af hrottafengnu og viðbjóðslegu ofbeldi. Manneskjur má sneiða, hræra, hakka, steikja, sjóða, skjóta, hengja og drekkja, jafnvel í sjónvarpi á þeim tímum sólarhrings þegar börn sitja gjarnan og glápa, án þess að hátt hljóð heyrist úr horni almennings. Það fer svo sem ágætlega saman við þá fílósófíu að það sé jú hlutverk foreldra að gæta að því að börn þeirra sitji ekki og glápi á hvað sem er í sjónvarpi. Gott og vel, virkar fínt fyrir mig. Hins vegar snýst dæmið við þegar kemur að því að sýna nekt í einhverju formi, hvað þá ástaratlot fólks. Þá spretta hinir púrítönsku amerísku heittrúarmenn á fætur hver af öðrum og þruma um að slíkt verði að banna og gera útlægt. Hlægilegur, eða grátlegur, tvískinnungur.

Víkur nú sögunni í útvarpsfréttir í gær. Þar hlustaði ég á frásögn af viðtökum þeim sem þetta unga fólk af Suðurnesjunum fékk þegar það hugðist bjóða kaupóðum almúganum í Kringlunni ókeypis faðmlög. Jú, vegfarendum virtist líka uppátækið vel, en ekki leið á löngu þar til á staðinn var mættur ábúðafullur öryggisvörður sem tók greinilega sjálfan sig og starf sitt allt of alvarlega og rak faðmendurna á dyr! Nú skal það ítrekað að þetta eru tveir grunnskólanemendur sem voru þarna með kennaranum sínum!! Jæja, unga fólkið lét ekki bugast heldur hélt yfir í hina helstu Mekku kaupæðisins, Smárann. Þar rétt tókst að úthluta einhverjum faðmlögum í viðbót áður en sama sagan endurtók sig. Úniformaðir öryggisverðir hentu fólkinu út fyrir ósvinnuna! Og hver voru svo rökin fyrir að fleygja þessu unga fólki á dyr? Jú (haldið ykkur, lesendur góðir, hér koma sko rök sem fá ykkur að öðrum kosti til að falla í stafi), töluverð hætta var talin á að annað fólk myndi taka til við að herma eftir unga fólkinu og faðma hvert annað, en það myndi augljóslega auka HÆTTUNA Á VESKJAÞJÓFNAÐI!!!

Þegar ég hlustaði á þessa rakalausu ofsahræðslu-þvælu, sem ég hélt að Ameríkumenn væru næsta einir um að láta stýra lífi sínu, þá fann ég fyrrnefndan aulahroll hríslast upp eftir bakinu á mér... Brrr!


mbl.is Kærleikslausar kauphallir?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég er þessu alveg sammála, "einhvur". Þetta eru ótrúlega hörð viðbrögð.

Kristín Jónsdóttir (IP-tala skráð) 22.12.2008 kl. 11:50

2 Smámynd: einhvur

Kristín: Já, það er tvískinnungurinn er svo svo neyðarlega vandræðalegur. Löggan stendur hnípin og horfir á aðgerðalaus á meðan skríll mölvar rúður í FJármálaeftirlitinu til að reyna að brjóta sér þar inngöngu, en þegar nokkrir unglingar ætla að bjóðast til að faðma þreyttan lýðinn í Kringlunni þá verður að fleygja þeim á dyr.

Makalaust.

einhvur, 22.12.2008 kl. 11:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband