Siðferðið lætur undan

Rétt eins og á hinum Norðurlöndunum, einkum í Danmörku, Noregi og Svíþjóð, þá erum við hægt og rólega að komast að því að náungi okkar er e.t.v. ekki jafn vel innrættur og við héldum. Ákveðinn hluti þjóðarinnar, rétt eins og mannsskepnunnar í heild, er siðblind.

Þetta á við um Þjóðverjana sem sáu ekkert athugavert við uppgang nasismans á millistríðsárunum og litu undan þegar Hitler tók við ofsóknir og síðan slátrun á milljónum manna.

Þetta á við um útlendingahatarana sem moka að sér fylgi á hinum Norðurlöndunum gegn loforðum um alls kyns ofsóknir og níð á fólki af öðrum uppruna en það sjálft.

Og þetta á við um þá sem telja að það að múgur veitist að hinum seinheppna Baugi júníor og grýti hann með snjóboltum sé einhvern veginn bara allt í lagi og engin vísbending um að við séum sem þjóðfélag að sökkva niður á lægra plan.

Í öllum tilvikum hefst slík afsiðun með litlum hlutum. Það er alls staðar þessi fyrsti "saklausi" snjóbolti. Við verðum svo sem samfélag - sem manneskjur - dæmd af okkar viðbrögðum við honum.


mbl.is Veist að Jóni Ásgeiri í miðbænum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mótmælum þannig að við hættum að versla í grísabúðunum virkar best

garún (IP-tala skráð) 18.12.2008 kl. 09:49

2 identicon

Þú hefur greinilega ekki lært mikla rökfræði því þetta er ógild afleiðsla. Að kasta snjóbolta í Jón Ásgeir leiðir ekki til nasisma eða rasisma. Lestu um slippery slope arguments í rökfræði og þá geriru þetta ekki aftur: http://en.wikipedia.org/wiki/Slippery_slope

Högni (IP-tala skráð) 18.12.2008 kl. 11:17

3 Smámynd: einhvur

Högni: Þú virðist eitthvað hafa lesið skakkt það sem stendur hér fyrir ofan. Þar er hvorki haldið fram að það að "kasta snjóbolta í Jón Ásgeir leiði[...] til nasisma eða rasisma". Þess í stað er þarna bent á þá augljósu staðreynd að rétt eins og í Þýskalandi millistríðsáranna og í seinni tíð á hinum Norðurlöndunum þá hefst afsiðun þjóðfélaga, t.d. með ofsóknum á hendur tilteknum hópum, með litlum hlutum. Þér til glöggvunar skal hér endurbirtur viðkomandi kafli pistilsins:

"Í öllum tilvikum hefst slík afsiðun með litlum hlutum. Það er alls staðar þessi fyrsti "saklausi" snjóbolti. Við verðum svo sem samfélag - sem manneskjur - dæmd af okkar viðbrögðum við honum."

Vonandi áttar þú þig á þessu.

einhvur, 18.12.2008 kl. 11:34

4 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Það er alveg rétt hjá þér að ákveðinn hluti þjóðarinnar er siðblindur og að siðferðið hafi heldur betur verið gengisfellt.

Held að það sé samt mun frekar þeim megin sem snjóboltarnir lenda en hjá þeim sem henda þeim þessa dagana. Allavega eftir fréttum undanfarnar 10 vikur að dæma.

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 18.12.2008 kl. 11:50

5 Smámynd: einhvur

Katrín: Svo skal þá böl bæta að benda á eitthvað annað? Með þeim rökum sem þú ýjar að er réttlætanlegt að skríllinn taki lögin í sínar hendur, í stað þess að láta lögreglu og refsikerfi eftir að ákveða sekt og sýknu. Það er ekki mikið eftir af okkur þegar við hættum að reyna að bæta það kerfi og látum þess í stað skrílnum eftir að fullnusta hefndarþorstann.

einhvur, 18.12.2008 kl. 11:59

6 identicon

Skríllinn? Fyrirgefðu, en hvaða skríl ert þú að tala um? Ég sé engan skríl. Ég sé hins vegar þjóðina, íbúa þessa lands, sem hefur fengið sig fullsadda af seingangi og svikum þessa svokallaða kerfis, sem algjörlega hefur brugðist okkur. Þú skalt gjöra svo vel að sýna mótmælendum tilhlýðilega virðingu, ég vil ekki heyra þetta orð, skríll.

Mótmælandi (IP-tala skráð) 18.12.2008 kl. 12:10

7 identicon

Ég er sammála þessum pistli. við eigum ekkert með að gengisfella siðferðið þó svo  að við höldum að einhverjir aðrir hafi gert það.  Engin réttlæting í því að stela bíl af því að það hefur verið gert áður.....   

Það hefur aldrei verið neinum málstað til gagns að vera með dónaskap og dólgslæti og þeim einum til niðurlægingar sem það framkvæma nema þá að mönnum sé svo nákvæmlega sama um sína ímynd eða manngerð að það er ekki af neinu að taka...  Ég er ekki að segja að Jón Ásgeir eða einhverjir aðrir séu saklausir en ég hef þá trú að ef menn hafa brotið af sér þá verði þeir látnir svara til saka... við höfum, jú, réttarkerfi og það er ekki þar með sagt að það séu lög og hin einu heilögu sannindi sem sagt er eða gert á götunni.....

gringi (IP-tala skráð) 18.12.2008 kl. 12:16

8 Smámynd: einhvur

Mótmælandi: Eitthvað virðist nú hafa farið fram hjá þér. Hér, ég skal rétta þér hjálparhönd:

A. SKRÍLLINN er sá 20-30 manna hópur sem gengur um bæinn, mölvar rúður, leggst upp á fólk á vinnustöðum þess og öskrar fúkyrði á það.

B. ÞJÓÐIN erum við hin ríflega þrjúhundruð þúsundin sem kjósum að fara EKKI um bæinn, mölvandi rúður eða vera með djöfulgang þar sem fólk er að reyna að vinna vinnuna sína.

Að lokum: Ég get bara því miður ómögulega orðið við því að nota ekki orðið skríl um þessa lögleysu. Kartafla hættir ekki að vera kartafla þó hún sé kölluð eitthvað annað.

einhvur, 18.12.2008 kl. 12:22

9 Smámynd: Hum

Veit nú ekki hversu mikið vit er í því að svara þessari færslu þinni en siðferði og afsiðun þjóðfélags hefst einmitt ekki með því að einstaklingar þurfi að taka afleiðingum gjörða sinna.

Það sem gerðist í þýskalandi er einmitt ekki sambærilegt við þessi mótmæli vegna þess að þar voru einstaklingar sem EKKI báru ábyrgð á ástandinu látnir bera ábyrgð.

Færsla þín gæti frekar talist til afsiðun þjóðar þar sem þú ferð fram á það að einstaklingar sem hafa orðið fyrir óréttlæti sýni engin viðbrögð eða sýni aðeins viðbrög sem þú telur ástættanleg.

Þú eins og svo margir aðrir gerir þér ekki grein fyrir því að lög og siðferðilegtréttlæti, hvað þá almennt siðferði eru algjörlega ótengd. Það er jú reynt að byggja lög á siðferði en niðurstaða dóma er algjörlega laus við öll tengsl við það sem við myndum almennt kalla réttlæti. Lög breytast og oft eru ekki til ákvæði í lögum sem geta almennilega tekið á því ástandi sem sem t.d núna hefur skapast í þessu samfélagi.

Lög eru líka sett af einstaklingum sem lúta engu aðhaldi hvað varðar það að þeir fari eftir því sem þeir lofa þegar þeir eru kosnir til þings. Sem sé lögin eru ekki fullkomin og eru t.d núna sniðin að þörfum yfirstéttar sem vill halda völdum eða eignum/auðæfum.

Þetta sést greinilega á því að ekki er neitt ákvæði í stjórnarskránni sem veitir þjóðinni leyfi eða leið til að koma ófyrirleitnum valdhöfum frá völdum og ekki er hægt að kyrrsetja eignir eða krefja þá einstaklinga sem stofna til skuldir til þess að greiða þær.

En eins og ég sagði áður þá veit ég ekki hversu mikið vit er í því að svara þér....

Hum, 18.12.2008 kl. 13:43

10 Smámynd: einhvur

Hum: Það er erfitt að festa hönd á þemanu í þessum hugleiðingum þínum. Læt því nægja að nefna hér nokkur atriði á stangli:

- "Það sem gerðist í þýskalandi er einmitt ekki sambærilegt við þessi mótmæli vegna þess að þar voru einstaklingar sem EKKI báru ábyrgð á ástandinu látnir bera ábyrgð." Í Þýskalandi nasismans var enginn látinn "bera ábyrgð". Þar fóru einfaldlega fram ofsóknir sem enduðu í fjöldamorði. Hér er sem betur fer ekkert því líkt uppi á borðinu, en hér virðist samt stefna í einhvers konar götu"réttlæti" sem einkennist af lögbrotum og ofsóknum gegn einhverjum óskilgreindum "sökudólgum" bankahrunsins. Að því leyti er þetta sambærilegt, enda hófst nasisma-viðbjóðurinn einmitt á ofsóknum gegn einhverjum afmörkuðum hópi sem gefið var í skyn að væri einhvern veginn ekki lengur hluti af mannlegu samfélagi heldur mætti sparka í til að fá útrás fyrir reiði. Hins vegar er rétt að halda til haga að þjónustufulltrúar þeirra banka sem hinn grímuklæddi skríll hefur ruðst inn á á síðustu dögum og æpt á verða seint taldir til þeirra "útrásarvíkinga" sem allir virðast nú samhuga um að hafi einir og sér séð um að setja bankana á hausinn.

- "sýni engin viðbrögð eða sýni aðeins viðbrög sem þú telur ástættanleg": Rangt. Ég hef aldrei farið fram á að menn fari að haga sér eftir því sem MÉR finnst, heldur því sem þessari ÞJÓÐ finnst, þ.e. lögum og reglum sem við höfum sett okkur sameiginlega.

- "Þú eins og svo margir aðrir gerir þér ekki grein fyrir því að lög og siðferðilegtréttlæti, hvað þá almennt siðferði eru algjörlega ótengd": Það breytir ekki þeirri staðreynd að einelti og ofsóknir gegn einhverjum hópi í þjóðfélaginu eru rétt eins og múgæsing og ofbeldisbrot vísbending um ákveðna afsiðun þjóðfélagsins. Ef við höldum ekki einum sið og komum fram við ALLA af a.m.k. einhverju lágmarks siðferðilegri tillitssemi, þá dæmir hegðunin sig sjálf og okkur setur ofan sem þjóð.

- "Lög eru líka sett af einstaklingum sem lúta engu aðhaldi hvað varðar það að þeir fari eftir því sem þeir lofa þegar þeir eru kosnir til þings": Já en Hum, þetta er bara alls ekki rétt hjá þér. Alþingis- og sveitarstjórnarmenn, ólíkt flestum öðrum opinberum starfsmönnum, þurfa einmitt að standa okkur kjósendum skil gjörða sinna á mest fjegurra ára fresti - undantekningarlaust!

- "[Lögin] eru t.d núna sniðin að þörfum yfirstéttar sem vill halda völdum eða eignum/auðæfum.": Almennt er viðurkennt að Ísland, rétt eins og önnur Norðurlönd, er eitthvað minnst stéttaskiptasta þjóðfélag í heiminum. Ég veit að það er núna í tísku að tala í vælu-Kremlartón um auðvaldið versus okkur vesalings aumu launþegana en þú verður nú að leggja eitthvað aðeins meira af rökum á vogarskálarnar svo hægt sé að taka afstöðu til svona innantómrar klisju-fyrirsagnar.

- "Þetta sést greinilega á því að ekki er neitt ákvæði í stjórnarskránni sem veitir þjóðinni leyfi eða leið til að koma ófyrirleitnum valdhöfum frá völdum": Þetta er bara alls ekki rétt. Við þjóðin getum komið hverjum sem við viljum – feitum, ljótum, leiðinlegum, úrmóðins, og já ófyrirleitnum – frá völdum með því einfaldlega að kjósa þá ekki í næstu kosningum.

- "ekki er hægt að kyrrsetja eignir eða krefja þá einstaklinga sem stofna til skuldir til þess að greiða þær." Ekki heldur rétt. Til eru lög um aðför sem innihalda kafla um kyrrsetningu og lögbann, sem hægt er að nota til að kyrrsetja eignir og réttindi skuldara.

- "En eins og ég sagði áður þá veit ég ekki hversu mikið vit er í því að svara þér....": Enga feimni. :) Í versta falli eigum við samtal og skiptumst á skoðunum. Takk fyrir spjallið.

einhvur, 18.12.2008 kl. 14:50

11 identicon

"sjálfstæðis" menn eru fyndnir,samt meira aumkunarverðir með þennan áróður ykkar,fyndnir samt...allavega hlegið að ykkur á mínum vinnustað og hann er stóóóór.

Sigurður H (IP-tala skráð) 18.12.2008 kl. 15:38

12 identicon

svo að ég tali tæpitungulaust þá VIL ég að hér sjóði allt uppúr,kerfið ÞARF að hreinsa af þeirri óværu sem þar situr við stjórn og kerfið ætlar ekki að hreinsa sig sjálft þannig að þeir sem vilja RÉTTLÁTT samfélag verða að taka það verk að sér.ÞÁ

Sigurður H (IP-tala skráð) 18.12.2008 kl. 15:46

13 Smámynd: Hum

held þú ættir að aðeins að kynna þér betur aðdraganda nasisma í þýskalandi... Til þess að þú getir hlutgert einstaklinga eins og var gert þar þá þurfa þeir eitthvað að hafa gert til þess að þeir eigi það skilið. Þarna var ákveðnum hópi einstaklinga kennt um eitthvað sem þeir höfðu í raun ekkert með að gera...

Þú varst líka að tala um að Jón Ágeir hefði orðið fyrir aðkasti en ekki bankastarfsmenn EN ég get ekki betur séð en að þeir einstaklingar sem vinni hjá bönkunum velji að lenda þarna á milli. Alveg eins og þeir einstaklingar sem ákveða að láta ákveðna hegðun viðgangast eða ákveða að taka þátt í henni. Þeir höfðu og hafa val um að  vinna ekki hjá banka og jafnvel þótt það þýði tekjumissi, atvinnuleysisbætur eða hvað eina þá er það samt þeirra val.

Þjóðin setur ekki lögin það er sko alveg á hreinu og í raun má setja spunringa merki við það hvort við séum frjáls. Verð að vitna í Rousseau: "Hún (þjóðin) er aðeins frjáls á meðan hún er að kjósa sér þingmenn, því um leið og kjöri þeirra er lokið er hún þræll [...]"......"Fullveldi getur ekki átt sér fulltrúa af sömu ástæðu og það verður ekki gefið eftir. Það býr fyrst og fremst í almannaviljanum og engin getur verið fulltrúi hans."'

Ég lít á það meira kantískt en þú að þegar einhver stofnar til samskipta og kemur illa fram við mann þá á hann skilið samsvandi hegðun.... Það er í raun frekar barnalegt að hugsa sem svo að allir eigi skilið sömu virðingu eða annarskonar framkomu. Almennt er talið að þeir sem gera eitthvað gott eigi að njóta sannmælis, sem sé vera lofaðir fyrir það og njóta ágóða. Afhverju eiga þeir sem gera eitthvað slæmt ekki að njóta sannmælis?

Held eins og þú að hegðun okkar dæmi sig sjálf en að við lendum á slæmum stað ef við ákveðum að bregðast ekki á rökréttan hátt við hegðun annara. Ætlaru seinna ð útfæra þá kröfu yfir í að nauðgunar fórnarlömb eigi að vera góð við nauðgara sinn? Svona þú mátt ekki vera vondur við mig þótt ég sé vondur við þig.

Nei stjórnvöld standa ekki skil á gjörðum sínum á 4 ára fresti þau hafa leyfi til þess að búa til langtíma áætlanir og geta sagst ætla að gera eitthvað á næstu 12 árum eða 16 árum ef þeir vilja og að "þetta" tiltekna loforð eigi við þar. Eins er það sjaldnast fyrir almennan leikmann að gera sér fulla grein fyrir því sem þeir hafa gert eða hvaða þau lög sem hafa verið sett þýða.

Með að koma þeim frá völdum.... þá er þetta einmitt ekki rétt hjá þér, það er ekki að koma einum né neinum frá völdum að þeir fái að sitja út það tímabil sem þeir voru kosnir til eftir að forsendur kosninganna eru brostnar. Þú hlýtur að sjá það að í raun gæti hópur manna komist til valda og gert það sem þeim dytti í hug í 4 ár án þess að við gætum nokkuð gert svo framanlega sem þær breytingar sem þeir kæmu í gegn væru í samræmi við stjórnarskrána. Og jafnvel þótt þær breytingar væri ekki í samræmi við hana þá myndi það aðeins þýða endalaus óþarga málaferli þar sem dómstólar sem myndu skera úr um að lögin væru ekki í samræmi við stjórnarskrá geta ekki fellt lögin úr gildi. Ríkið yrði eflaust bara skaðabótaskilt og auka kostnaður vegna sí endurtekinna mála myndi falla á þjóðina....sem sé okkur ...

Nú er ég ekki að reyna að vera dónaleg eða leiðinleg en lög um kyrrsetningu og aðför eru  ekki það sama. Lög nr. 31 1990 Lög um kyrrsetningu, lögbann og fleira... kveða á um kyrrsetningu en lög um Aðfarir eru nr.90 frá 1989.. þótt bæði falli undir kafla 5.e Fullnustugerðir.... Það sem ég var að meina er að lögin hjá okkur gera í raun ekki ráð fyrir jafnmiklum óheiðaleika og siðleysi og raunber vitni og því eru ekki til lagaákvæði sem nægja til þess að hægt sé samkvæmt lögum að leggja hald á eignir þeirra einstaklinga sem hafa stofnað til skulda vegna þess að  þeir fela sig á bak við alskynsfélög og annað slíkt sem gerir það að verkum að þeir þurfa ekki að borga skuldirnar en halda eignunum.  Ég var í raun að gera ráð fyrir því að þú skildir að ég væri að tala um útrásavíkingana og að ekki væru til lagaákvæði til að krefja þá um að greiða sínar skuldir....

ekki spurning um feimni

Hum, 18.12.2008 kl. 15:46

14 identicon

þá kann einhvur að spurja hvort þetta séu réttlátar aðferðir til að koma breytingum í gegn og ég játa því,þetta eru fullkomlega réttlátar aðferðir við að svara því óréttlæti sem ég og aðrir landsmenn eru beittir,stjórnvöld sem ljúga og svíkja umbjóðendur sýna eiga einfaldlega ekki skilið annað,og varðandi kostnað þá er ég frekar tilbúinn að sjá skattpeninga mína renna í að laga til eftir þessar hetjur heldur en að sjá á eftir þessum aurum í vasa óhæfra stjórnenda banka, pólitíkusa eða stjórnendur eftirlitsstofnana sem hafa gersamlega brugðist skyldum og trausti.

Sigurður H (IP-tala skráð) 18.12.2008 kl. 15:52

15 Smámynd: Hum

Sigurður H við fyrri athugasemdum

ég get ekki séð að heimska og sjálfselska, aumkunarverðuleiki, eða hvað annað tengist sjálfstæðisflokknum neitt meira eða minna en öllum öðrum hópum einstaklinga

Þú sérð það nú sjálfur á honum Hauki bónusfána... ekki er hann sjálfstæðismaður en hann er það sjálfselskur(sjálfselska er oft tengd sjálfsstæðismönnum) að honum finnst sjálfsagt að ég og þú borgum meira en 20.000 kr á dag meðan hann situr inni fyrir lögbrot vegna þess að það er prinsip atriði hjá honum... Ég vil ekki kosta áhugamál annara hvað þá skoðanir sem ég er ekki sammála.

Bara svo það sé á hreinu þá tel ég lögin gölluð en það á að fara eftir þeim svo framanlega sem það að fara eftir þeim veldur ekki skaða né er mjög greinilega og að almennings áliti rangt.... þegar slíkt gerist þá kallar það eftir laga breytingu sem oftast er gerð en það sem Haukur var að berjast gegn þegar hann var dæmdur er einmitt hvorki talið rangt samkvæmt lögum né almennings áliti.

 Með kostnaðinn... það er nú ekki svo ýkja erfitt að kippa hurðum af hjörum eða þá láta nægja að brjóta eina hurð til að stinga hendi inn til að opna hina. Tala nú ekki um það að til er hellingur af fólki sem kann að pikka upp hurðir og eflaust er hægt að hringja á lögregluna ef opinber stofnun neitar að veita ákveðnum hópi einstaklinga þjónustu eða aðgang án ástæðu.....

Hum, 18.12.2008 kl. 16:01

16 identicon

Hum: ég er algerlega sósammála þér með hetjuna sem flaggaði bónus á þaki þess skrípaleikhús sem kallast alþingi,sem nota bene var eitt sinn stofnun sem hægt var að bera virðingu fyrir en þeir sem þar eru hafa dregið þá stofun niður í svaðið,.flaggarinn er sannur SJÁLFSTÆÐIS-SINNI

Sigurðru H (IP-tala skráð) 18.12.2008 kl. 16:46

17 Smámynd: Hum

hann var ekki dæmdur fyrir að flagga bónus fánanum.... ég nefndi bara bónus flöggunina til að að fólk fattaði hvern ég væri að tala um...

 Flöggunin kemur því svo líka ekki við hvort hann borgar sektir fyrir sína dóma eða lætur okkur hin kosta hans skoðanir

Hum, 18.12.2008 kl. 17:12

18 Smámynd: einhvur

SIgurður H:

- Eeeeeinmitt, og þessi "úthreinsun" þín er akkúrat svo miklu betur til þess fallin að velja fulltrúa sem RÉTTLÁTlega representera okkur sem búum í þessu þjóðfélagi heldur en þetta peský kosningakerfi sem við nú búum við. Þú ættir að lesa þér til t.d. um frönsku byltinguna. Kannski þú gætir gerst fallöxa-smiður? Það varð einmitt miiikil eftirspurn eftir slíkum smiðum í þeirri byltingu. Það sem þú ert að tala um er öngþveiti og skálmöld, þar sem hinir minni máttar munu troðast undir og hvert það óréttlæti sem fyrir er mun margfaldast. Nei, þetta tal þitt er léttvægt.

- Varðandi seinna kommentið, þ.e. "varðandi kostnað þá er ég frekar tilbúinn að sjá skattpeninga mína renna í að laga til eftir þessar hetjur heldur en að sjá á eftir þessum aurum í vasa óhæfra stjórnenda": Þetta gengur ekki upp. Af tveimur ástæðum:

1) Það skiptir bara engu máli hvort þér finst að við eigum að nota skattpeningana okkar í viðgerðir eftir skrílinn. Þetta eru ekki ÞÍNIR skattpeningar. Ég vil t.d. frekar að þeir fari m.a. í skóla og sjúkrahús og það vill svo til að ég er þar í meirihluta þjóðarinnar, sem telur slíkt brýnna en að kó-a vælur í einhverjum móðursjúkum athyglissjúklingum.

2) Annað minnkar ekkert ef hitt eykst, þ.e. skattpeningarnir fara ekkert "frekar" í að skipta út brotnum rúðum heldur í að borga laun hjá þessu fólki. Skattpeningar okkar fara í HVORT TVEGGJA, hvort sem okkur líkar betur eða verr. Eftir því sem fleiri rúður eru brotnar þá fækkar ekkert krónunum sem fara í umræddra vasa. Það hækkar bara viðgerðarreikningurinn og ef þú ert svona ofboðslega ánægður með þann reikning þá er þér alfarið frjálst að borga hann mína vegna. Njóttu bara.

Hum: Þér verður hins vegar að svara af meiri alvöru:

- "Þarna var ákveðnum hópi einstaklinga kennt um eitthvað sem þeir höfðu í raun ekkert með að gera": Ó, þannig að það var í sjálfu sér ekkert athugavert við að leggja hópinn í einelti og svipta hann smáma saman af þeim réttindum sem "allir hinir" nutu. Nei, skv. þínum rökum þá var þetta bara rangt af því að hópurinn bar enga SÖK á efnahagsástandinu í Weimar-Þýskalandi?! Þetta er algjörlega eitraður boðskapur, sem felur í sér einhvers konar heimatilbúna réttlætingu á að þetta blessaða "útrásar-víkinga"-lið eigi nú ekki endilega að fara með samkvæmt gildandi lögum og reglum þjóðfélagsins heldur eigi það að njóta einhverrar takmarkaðri útgáfu af mannréttindum. Það megi nú sparka soldið í það, hrella þessar manneskjur og fjölskyldur þeirra (því þær hljóti jú að hafa notið góðs af öllu "arðráninu"), taka af því þær eignir sem það kann enn að eiga, ekkert endilega samkvæmt einhverjum vandræða "lögum" og stinga því svo öllu í fangelsi, alla vega þangað til okkur rennur "réttlát reiðin". Það vantar nú bara "Sieg Heil!" fyrir aftan það sem þú ýjar að þarna.

- "ég get ekki betur séð en að þeir einstaklingar sem vinni hjá bönkunum velji að lenda þarna á milli": Nei Hum þetta HLÝTUR þú að sjá að er þvæla, er það ekki? Hvernig dettur þér í hug að leggja það á herðar þjónustufulltrúa mínum, sem hefur unnið í bankanum örugglega í yfir tuttugu ár, og samstarfskonum hennar að SEGJA UPP til að friða þína samvisku?? Eiga þá sum sé allir að segja upp í öllum ríkisbönkunum til að verða ekki fyrir "réttlátri reiði" skríls sem ryðst þangað inn til að öskra á þá sem þar vinna?? Og þeir sem hafa ekki vit á að segja upp nógu hratt ja þeir eiga þetta bara skilið??!? Og hver á þá að sjá um að halda þessum bönkum gangani daginn út og inn? Kannski við eigum bara ekkert að hafa neina banka? Nei, Hum, þessi málflutningur leiðir bara út í einhverja mýri.

- Varðandi Rousseau: Þetta lítur eins og eitthvað upp úr Samfélagssáttmálanum og ef svo er þá tók Rousseau reyndar fram að ekki sé hægt að viðhalda eðlilegri framkvæmd réttinda í fullveldinu NEMA borgríkið sé afar smátt í sniðum, en það á hiklaust við hér í þessu örríki okkar. Annars er ég ekki áskrifandi nauðhyggju og þjóðvilja Rousseau, þannig að ef þú siglir undir hans flaggi þá verðum við bara að vera sammála um að vera ósammála.

- "þegar einhver stofnar til samskipta og kemur illa fram við mann þá á hann skilið samsvandi hegðun": Þar sem lögmálið auga fyrir auga ræður verða allr á endanum blindir.

- "Það er í raun frekar barnalegt að hugsa sem svo að allir eigi skilið sömu virðingu eða annarskonar framkomu": Þrátt fyrir að ég sé lélegur fylgismaður Krists og hvort sem það er fyrir heilaþvott þann að hafa fæðst inn í þjóðkirkjuna eður ei, þá aðhyllist ég það evangelíska kristilega siðferði sem þetta lýðveldi er stofnað um. Því verðum við bara að vera sammála að vera ósammála um gildi þess.

- "Afhverju eiga þeir sem gera eitthvað slæmt ekki að njóta sannmælis?": Vegna þess að í "sannmæli" felst að þú hljótir réttláta meðferð fyrir hegðun þína, þar á meðal að ef þú brýtur gegn lögum okkar allra - eða samfélagssátmálanum ef það hugnast þér betur - þá verðir þú dæmdur til sanngjarnrar refsingar.

- "Ætlaru seinna ð útfæra þá kröfu yfir í að nauðgunar fórnarlömb eigi að vera góð við nauðgara sinn?" Nei, þú ert enn á villigötum: Nauðgarinn skal dæmdur til sanngjarnrar refsingar, sem t.d. hér á Norðurlöndum er nokkurra ára vist í fangelsi en í öðrum hlutum heimsins t.d. ævilangt fangelsi eða líflát. Svo er það hins vegar hinum nauðgaða auðvitað einum viðkomandi hvernig hann gerir ofbeldið upp við sjálfan sig, hafi hann á annað borð burði til þess. Það er byrði sem verknaðurinn lagði á hann einan, af fullri ósanngirni.

- "þau hafa leyfi til þess að búa til langtíma áætlanir": Iss, það er meiningarlaust með öllu. Hvað sem einhvur almenn lög segja nú getur nýtt þing (og reyndar núverandi líka) afnumið að vild. Auðvitað er misjafnlega auðvelt að vinda ofan af vitleysunni sem stjórnmaálmenn kalla yfir okkur með lagasetningu sinni. Sem reyndar eru rök fyrir því að takmarka sem mest hvað þau mega sýsla við og við almenningur fáum sem mest af okkar lífi í friði. Þannig að ef þú ert á þeirri skoðun nú þá erum við sammála um það.

- "sjaldnast fyrir almennan leikmann að gera sér fulla grein fyrir því sem þeir hafa gert": Það er augljóst að iðulega hafa stjórnmálamenn ekki sjálfir hugmynd um hvað þeir eru að gera eða afleiðingar þess.

- "eftir að forsendur kosninganna eru brostnar": Við þetta er ýmislegt að athuga, einkum þó þetta: Hver ert þú, nú eða einhver takmarkaður hópur í þjóðfélaginu, að þykjast geta ákveðið fyrir okkur öll hvenær "forsendur kosninganna eru brostnar"? Hver gaf þér þann rétt? Hvenær varðst þú hinn upplýsti alvaldur sem ert bær til að taka slíka ákvörðun? Ég t.d. kaus ekkert í síðustu kosningum á þeirri forsendu að ef einhver djöfullinn myndi gerast í efnahagslífi heimsins og erlendis færu fullt af bönkum á hausinn þá færu í kjölfar þess engir bankar landsins á hausinn og engin önnur áföll riðu hér yfir. Nei, þvert í móti þá kaus ég mína fulltrúa til þings til einmitt að STANDA Í LAPPIRNAR og VINNA VINNUNA SÍNA ef hér færi allt í uppnám. Það er ÞÁ fyrst sem ég tel að reyni á hvort þessir fulltrúar standi sig. Nú þegar reynslan er komin á það, í lok kjörtímabilsins, þá er ég stakk búinn til að meta hvort ástæða sé til að kjösa þetta lið áfram eða hvort ég eigi að veðja á að aðrir standi sig betur. Þannig virkar kerfið sem við höfum fylgt í þjóðarsátt allan lýðveldistímann og við þurfum að KOMA OKKUR SAMAN um aðra skipan mála ef breyta á til. Þú eða aðrir sem ósáttir eru við lýðræðið hafið engan rétt til að taka af þjóðinni þennan rétt með því að "koma frá völdum" þeim sem við höfum öll kosið þangað.

- Svo er þetta auðvitað alveg rétt hjá þér með fullnustulöggjöfina, þetta eru sitt hvor lögin og hvorki leiðindi né dónaskapur hjá þér að benda á það.

- "Ég var í raun að gera ráð fyrir því að þú skildir að ég væri að tala um útrásavíkingana og að ekki væru til lagaákvæði til að krefja þá um að greiða sínar skuldir": Jújú, ég náði því sosum að þú ættir við þetta blessaða víkingastóð. Ég get hins vegar ekki keypt það að það eigi bara einhvern veginn að frysta eignir eða stunda eignaupptöku því það sé eitthvað svo erfitt og ómögulegt að setja slík lög. Slík refsing VERÐUR að byggjast á lögum, jafnvel bara svona 80-mínútna lögum eins og Alþingi sprautar út úr sér þessa dagana. Annars erum við ekki lengur réttarríki og þá fer að fjara undan 'samfélagssáttmálanum' okkar.

- "ekki spurning um feimni": Núnú, svona er ég þykkur, ég fattaði ekki að þú varst bara að lýsa frati á mig með því að segja "En eins og ég sagði áður þá veit ég ekki hversu mikið vit er í því að svara þér....". Svona er maður vitlaus að gera ráð fyrir almennri kurteisi frá einhverjum sem maður hefur aldrei talað við áður. Hún er víst hvort sem er algerlega ekki í tísku. O jæja, live and learn.

einhvur, 19.12.2008 kl. 10:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband